Hönd hennar skalf um leið og hún opnaði skáp inn til að ná í hafnaboltakylfuna sem hún hafði falið. Eftir síðustu árásina hafði hún hugleitt að losa sig við kylfuna, en þess í stað hafði hún hreinsað blóðið af henni eins vel og hún gat og falið hana í skápnum. Hún var ekki heimsk. Hún horfði á CSI og aðra þætti um meinafræði. Hún vissi allt um blóðslettur og lífsýni.
Fugl flaug upp úr runna með vængjaslætti og látum. Eve Bailey stöðvaði hestinn sinn, með hjartað uppi í hálsi, og áttaði sig nú fyrst á því hve langt frá búgarðinum hún var komin. Vindurinn hafði magnast og þrumuský voru á vesturhimninum. Hún fann regnlykt í loftinu. Hún hafði riðið inn í óbyggðirnar, hafði farið af sléttunni með sínu háa grasi til þess að ríða innan um runna og kaktusa.
Tilhugsunin nægði til að magi hans herptist saman. Hvað í fjandanum var hann að gera hérna? Whitehorse, Montana, var sá staður á jörðinni sem hann vildi síst vera á. Hann langaði ekkert að hitta ömmu sína. Hafði enga löngun til að fara aftur á búgarðinn og reyna að rifja upp góðar minningar. Í huga hans hlaut bölvun að hafa verið lögð á búgarðinn. Cordell hafði verið með slæma tilfinningu fyrir þessu frá byrjun. Þess vegna hafði hann ekki viljað láta Cyrus fara þangað einan. Cyrus virtist alltaf geta fundið vandræði
Jack hafði ekki séð hræðu í langan tíma þegar hann kom auga á konuna við veginn. Hann keyrði eftir þjóðvegi 191, á leið norður í strjálbýlasta hluta Montana, þegar hann sá hana. Í fyrstu deplaði hann augunum og taldi sér missýnast, þar sem hann hafði ekki séð neinn annan bíl tímunum saman. En þarna var hún, stóð við veginn, hélt þumlinum út, með sítt og rautt hár sem féll niður fyrir axlirnar, klædd í þröngar gallabuxur sem smellpössuðu yfir laglegan bakhluta og ótrúlega langa leggi.