Flýtilyklar
Carla Cassidy
Dúkkuhúsið
Lýsing
Í fyrsta sinn í þrjú og hálft ár var Liz frænka sein fyrir. Roxy Marcoli leit á úrið sitt í þriðja skipti á fimm mínútum og reyndi að æðrast ekki.
Roskna konan hafði aldrei fyrr komið of seint með brauðið og kökurnar sem Dúkkuhúsið bauð viðskiptavinum sínum upp á daglega. Hún kom ævinlega klukkan hálfsjö, hálftíma áður en Roxy opnaði veitingahúsið.
Klukkan átti nú eftir fjórðung í sjö og ekkert bólaði á Liz frænku. Roxy hafði þegar hringt tvisvar heim til hennar en enginn svarað. Hún hafði líka reynt að hringja í farsímann.
–Kannski hefur hún tafist í umferðinni, sagði framkvæmdastjórinn hennar Roxy, Josephine Landers, og kannaði stöðuna á bökunum í ofninum.
–Já, umferðarteppur eru nefnilega svo algengar í Wolf Creek í Pennsylvaníu, sagði Roxy þurrlega. Hún minntist þess ekki að hafa heyrt um öngveiti í umferðinni í litla ferðamannabænum í fjöllunum um þrjátíu kílómetra frá borginni Hershey.
–Hún svarar aldrei í símann ef hún er að keyra. Hún kemur ábyggilega á hverri stundu, sagði Josie og lét óstundvísi Liz sér auðheyrilega í léttu rúmi liggja.