Flýtilyklar
Jana DeLeon
Uppgjörið
Lýsing
Annar lögreglumaðurinn kom að hlið hennar. –Sagðirðu að
þig grunaði hver hefði gert þetta?
Hún kinkaði kolli. –Victor Brant.
Lögreglumaðurinn skrifaði hjá sér. –Er hann skjólstæðingur þinn?
Hún hló næstum því að þeirri hugmynd að eigingjarni fanturinn
Victor Brant viðurkenndi að hann þarfnaðist hjálpar. –Nei.
Konan hans er skjólstæðingur minn.
–Og er herra Brant ósáttur við það?
–Hann er ósáttur við alla sem hlýða ekki hverju orði hans og
alla sem hugsa ekki eins og hann. Hann er versti fantur sem hægt
er að finna... farsæll, myndarlegur, dáður af kollegum og samfélaginu
öllu.
–Þú meinar að fólk trúi ekki frú Brant þegar hún segir frá því
sem maðurinn hennar gerir.
–Enginn trúði henni. Lögreglan var send tvisvar sinnum heim
til þeirra. Í bæði skiptin neitaði lögreglan að yfirheyra herra
Brant. Síðast gerðu lögreglumennirnir ekki annað en að skipuleggja
golf með Brant daginn eftir.
Lögreglumaðurinn hnyklaði brýrnar. –Var það lögreglan í
Jackson?
–Nei. Brant-hjónin bjuggu í Willow Grove. Það var lögreglan
þar. Bæjarstjórinn er náskyldur herra Brant. Lögreglustjórinn er
frændi hans. Skilurðu hvað ég meina?
–Já, frú, og mér líkar það engan veginn. En ég get fullvissað
þig um að hvorki bæjarstjórinn í Jackson né lögreglustjórinn láta
herra Brant komast upp með nokkuð. Ef hann ber ábyrgð á
þessari hótun verður hann kærður. En ég skil ekki þessi skilaboð.
Hann lyfti upp plastpoka með miðanum í. –Hvað hefur þú sem
hann telur að tilheyri sér?
Joelle dró andann djúpt að sér. –Konuna hans.
Lögreglumaðurinn glennti upp augun. –Fyrirgefðu?
–Auk þess að vera ráðgjafi fyrir konur er ég líka sjálfboðaliði
hjá samtökum sem hjálpa konum að... færa sig