Flýtilyklar
Ástarsögur
Áskorunin
Lýsing
Ísmolarnir bráðnuðu í vodkaglasinu hennar Miu Palinski. Það
var táknrænt fyrir framtíð hennar og hvernig hún var að verða
að engu fyrir framan nefið á henni.
Hún var nýorðin þrítug. Engu skipti þótt hún minnti sig
margoft á að það væri kominn tími til að sættast við nýja lífið,
henni fannst samt að það hefði átt að vera hún sem sveif yfir
gólfið í leikhúsinu í þokkafullum dansi.
Hún virti fyrir sér píanóleikarann hinum megin á barnum
og velti því fyrir sér hvort þessi þunnhærði maður hefði einhvern tíma átt sér stærri drauma en að spila gamla slagara á
fínum hótelbar í miðborg Boise. Flestir listamenn höfðu átt
sér drauma um frægð og frama. Mia gat að minnsta kosti
huggað sig við að hún var ekki sú eina sem farið hafði á mis
við drauma sína.
Ekki sá hún ofsjónum yfir því að yndislegu nemendurnir
hennar fengju tækifæri til að njóta sín í hlutverkum sínum sem
brúðkaupsgestir í uppsetningu Ungmennalistaklúbbs Idaho á
Þyrnirós við tónlist Tsjaíkovskís. Verra þótti henni þó að vera
föst baksviðs með frú Rosellino, sem var sannfærð um að sex
ára gömul dóttir sín yrði heimsins frægasta dansmær.
Danskennararnir kölluðu mæðurnar sem óðu í villu og
svíma varðandi framtíð barna sinna gjarnan hugsjónakonurnar. Madison Rosellino kæmist til dæmis aldrei í listaskóla
nema henni tækist fyrir eitthvert kraftaverk að verða taktviss
og hætta að bora í nefið á sér meðan á sýningu stóð.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók