Flýtilyklar
Ástarsögur
Kraftaverkabarnið
Lýsing
Fran Myers horfði á landslagið sem birtist við hverja beygju
strandvegarins. Asúrblátt Eyjahafið blasti við, hvítu strandirnar voru langar og dökkgræn furutrén skammt frá. Þetta
virtist óraunverulegt. Dökk ský voru á ólgandi himninum og
gerðu landslagið enn dramatískara. Litadýrðin var stórfengleg.
–Ég vissi ekki að gríska rivíeran væri svona falleg, Kellie.
Þetta er ótrúlegt.
–Þess vegna byggði maðurinn hótelið þar sem við verðum
næstu dagana. Persephone-hótelið er nýjasta afdrep hinna
ríku, sem hafa efni á kyrrð og ró í fullkomnum munaði.
Þetta var svo fallegt umhverfi að þær upplýsingar komu
Fran ekkert á óvart. –Komstu þess vegna með mig hingað,
alla leið frá Aþenu? Af því að þú telur mig þurfa kyrrð og
ró?
–Þvert á móti. Margir konungbornir koma hingað í frí. Ég
vona að þú hittir einhvern einhleypan og myndarlegan. Þið
munuð horfast í augu og það verður ást við fyrstu sýn.
–Það gerist aldrei, ekki eftir fyrsta hjónabandið mitt.
Besta vinkona Fran frá því í barnæsku brosti til hennar.
–Ekki verða hissa á því, Kellie.