Flýtilyklar
Barb Han
Vitni í hættu
Lýsing
–Bara við tvö erum svo vitlaus að vera á fótum, sagði hún við tveggja ára gamla hundinn
sinn, Boomer, og neyddi sig til að anda rólega.
Boomer opnaði ekki augun. –Og ég held að það
eigi bara við um mig.
Að vinna á meðan aðrir sváfu hentaði Sadie
ágætlega. Hún hafði litla þörf fyrir dagsbirtu og
fólk eftir að henni hafði verið rænt, fyrir tveimur
árum.
Já, hún kipptist enn til við minnsta hljóð. Leit
stöðugt um öxl. En hún var alltaf tilbúin. Átti
alltaf von á því versta. Var alltaf á verði. Samt
hafði síðasta árið verið friðsælt. Það var engin
ástæða til að ætla að nokkuð breyttist, þrátt fyrir
að eðlisávísunin segði annað.
Að vera stöðugt á verði var svona svipað og
að leggja bíl en skilja eftir kveikt á háu ljósunum. Innan skamms yrði hún straumlaus.
Boomer ýlfraði aðeins í svefni. Verndari
hennar? Það var fyndið. Hún hafði valið stóran
hund í athvarfinu sér til verndar. Þessi golden
retriever hennar var hins vegar álíka hugrakkur
og Scooby Doo. Hann vildi bara éta og gæti ekki
einu sinni rekið burt kött. Hins vegar hafði hann
hátt og geltið gat verið ógnvekjandi. Sadie bjóst
við að það nægði til að láta menn hugsa sig
tvisvar um.
Þegar hún beygði sig niður til að taka hveitipokann upp, heyrði hún annað hljóð sem fékk
hárin til að rísa á höfði hennar. Boomer hallaði
líka undir flatt þegar smellur heyrðist í lás.
Hjartað barðist í brjósti hennar.