Flýtilyklar
Carla Cassidy
Afturgangan
Lýsing
Þetta var fullkomið kvöld fyrir draugagöngu. Tunglið í
Mississippi var næstum falið bak við þokuna sem skreið yfir
landið og göturnar í litla bænum Lost Lagoon.
Savannah Sinclair batt vasaljósið með tvöfalda geislanum,
sem hékk við mittið á henni undir hvítum, þunnum, skósíðum
kjólnum, betur við sig. Hún hafði lýst andlitið með púðri og
vissi að flestir myndu telja að það sem hún aðhafðist væri
meira en lítið undarlegt.
Kannski hafði hún verið meira en lítið undarleg síðustu tvö
árin eftir að eldri systir hennar og besta vinkona, Shelly, hafði
verið myrt og fundist fljótandi í lóninu.
Líf Savannah hafði breyst til frambúðar þessa nótt. Hún
hafði breyst til frambúðar og það sem hún ætlaði sér að gera
núna, á miðnætti, sannaði að dauði Shelly hafði ennþá djúpstæð áhrif á hana sem hún gat ekki hrist af sér.
Hún starði á draugalega spegilmynd sína og velti því fyrir
sér hvort hlutirnir væru öðruvísi ef morðið á Shelly hefði verið
upplýst og morðingi hennar handtekinn.
Hún sneri sér snöggt frá speglinum og gekk út af baðherberginu. Klukkan á náttborðinu í svefnherberginu sýndi tölurnar
23:30. Tímabært að leggja í hann.
Hún slökkti öll ljós í fjögurra svefnherbergja húsinu sem
hafði einu sinni verið heimili fjölskyldu hennar, greip vasaljós
sem passaði í lófann og smeygði sér út um bakdyrnar.
Dimm nóttin umlukti hana og hún leit snöggt á hús næsta
nágranna, ánægð með að öll ljós voru slökkt og nágranninn,
Jeffrey Allen, var örugglega kominn í háttinn.