Chloe Winchester hrökk upp með andfælum og gaf frá sér angistaróp. Hún settist upp í rúminu. Hjartað hamaðist. Hún leit í kringum sig. Ekkert. Engin ógn. Hún var bara í hálfdimmu svefnherberginu sínu um miðja nótt. Tunglsljósið skein inn um mjóa gluggann fyrir ofan rennihurðina. Hún var úr gleri, en tjöldin dregin fyrir. –Ekkert, það er ekkert, hvíslaði hún milli þess sem hún saup hveljur. –Bara martröð. Reyndar var það sama martröðin og venjulega. Í aðalhlutverki var hinn ógnarfarsæli, yfirmáta stjórnsami og skapbráði fyrrverandi eiginmaður hennar, Ted. En hann var ekki raunveruleg ógn. Ekki lengur. Ted Davies tilheyrði fortíðinni. Chloe strauk skjálfandi hendi yfir hárið á sér og vangann og dró andann djúpt nokkrum sinnum uns hartað hægði á slættinum. Þegar púlsinn var loksins orðinn eðlilegur og svitinn á enninu að mestu þornaður lét hún sig falla aftur á koddann, breiddi sængina yfir sig og lokaði augunum.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Klukkan var stundarfjórðung gengin í sex þennan sólríka apríldag. Dalton Ames sat á bekk í almenningsgarði nálægt skrifstofu fyrirtækis síns í Denver og sagði við sjálfan sig að hann væri að gera glappaskot. Hann hefði átt að krefjast svara áður en hann féllst á að hitta hana. Hann hefði átt að spyrja hana hvers vegna í ósköpunum hún hefði haft samband við hann upp úr þurru og hreinlega orðið að tala við hann undir fjögur augu. Gæti eitthvað gott leitt af því að þau hittust núna? Nei. Ekkert. Það vissi hann. Samt var hann hingað kominn með skjalatösku við fætur sér og magann í hnút. Og beið. Fáránlega spenntur að sjá hana. Ekki var víst að neitt yrði úr neinu. Það vissi hann vel. En samt var hann spenntur. Hugsanir hans gufuðu upp er hann sá hana nálgast. Þarna kom hin brosmilda Clara Bravo, yndislegri en nokkru sinni, klædd síðum, hvítum kjól og stuttum gallajakka, með gljáandi dökka hárið sitt og freistandi varirnar. En þessa stundina brosti hún ekki. Hún var alvarleg á svip og horfði niður fyrir sig. Clara. Mikið var hún falleg. Og kasólétt.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók