Erica Corelli virti fyrir sér hvítar strendur Mirabelleeyju, seglbátana og byggingar, sem minntu á brúðuhús, vel hirta garðana og hvít grindverkin um leið og ferjan lagðist að bryggjunni. Sólin var lágt á lofti, enda komið fram á kvöld snemma í apríl. Erica strauk um um hár Jason og sagði með uppgerðar glaðværð: –Er þetta ekki falleg eyja? Henni leiddist að þurfa að lita ljóst hár hans, en við því var lítið að gera
Noah andaði djúpt og bægði reiðinni frá sér. Reiðin var hans daglegi förunautur og ferðafólkið hafði ekkert til saka unnið. Hann vildi reyna að vera þolinmóður. Það hafði tekið hann fimmtán ár að koma hingað, svo að nokkrar mínútur í viðbót komu ekki að sök. Hann virti fyrir sér fólkið þegar það var komið niður á bryggjuna. Hann veitti því athygli að hópurinn samanstóð af pörum á öllum aldri, en ekki fjölskyldufólki.