–Stuttbuxur eru fyrir börn og íþróttamenn. Ætlarðu að kippa mér út úr verkefninu ef ég fer ekki í þær? Thomas lokaði brúnu möppunni þar sem verkefni Wills var útlistað. Hugsanlegt verkefni. En verra gat það verið, hugsaði Thomas með sér. Þeir gætu verið að þrátta um þetta í viðurvist annarra en ekki inni á skrifstofunni hans. Hann vissi ekki hvort Will var alvara eða ekki. Óvissan og óróleikinn settu viðvörunarbjöllur í gang í huga hans. Stuttbuxurnar voru greinilega mikið mál en hann afréð að spyrja ekki hvers vegna. Í áranna rás hafði Thomas unnið með fjölda manna og kvenna sem gerðu ótrúlega hluti á vettvangi og fólk sem studdi þau úr höfuðstöðvunum. Lánið gat ekki leikið við hann að eilífu varðandi ráðningar. Það var líklega kominn tími til að setjast í helgan stein og láta einkalífið ganga fyrir vandamálum þjóðarinnar. En þjóðin þarfnaðist hans og hafði farið fram á sérþekkingu hans einu sinni enn. Ef hann setti saman rétta hópinn gæti hann kvatt starfið sáttur og sæll. –Ég hef skipt um skoðun, Will. Þú ert ekki rétti maðurinn í þetta starf. –Af því að ég vil ekki bera út póst í þessum fáránlegu stuttbuxum?
–Nei. Hún kom til hans og kyssti hann. –Ég átti leið hjá og datt í hug að við gætum orðið samferða. –Það er fínt. Það er bara einn stuttur fundur eftir hjá mér. Það var bankað. Fjandinn. Hann yrði brátt að setja einkalífið í forgang. Jo blikkaði hann. –Ég bíð í móttökunni. –Takk. Hann horfði á eftir henni, þakklátur fyrir að hafa fengið annað tækifæri með konunni sem skipti hann máli, konunni sem skildi mikilvægi starfs hans. Jo var fagleg og sagði ekkert við manninn í gráu jakkafötunum sem gekk inn þegar hún gekk út. –Lokaðu dyrunum, sagði Thomas við gestinn. –Og fáðu þér sæti. Riley O‘Brien sérfræðingur hlýddi. Thomas leit af myndinni af lögreglustjóranum í Belclare og á manninn sem sat þolinmóður og beið. –Takk fyrir að bregðast svona fljótt við. –Já, herra. Thomas hikaði. Enn eitt merki um það að ákvörðunin um að fara á eftirlaun var rétt. Maður í hans stöðu mátti ekki sjá eftir verkefnunum sem hann útdeildi en það sem hann þurfti að biðja O‘Brien um var ekkert smáræði.