Flýtilyklar
Janice Kay Johnson
Launung
Lýsing
Án bókanna hefði stofan verið dálítið kuldaleg ásýndum. Þar voru nefnilega engin listaverk. Kannski var þetta leiguhúsnæði. Þá vildi konan kannski síður bora í veggina. En á arinhillunni hefði hann átt von á að sjá innrammaðar myndir eða einhverja skrautmuni. Hann hristi höfuðið og gekk að eldhúsdyrunum. Þar nam hann staðar, virti líkið fyrir sér og litaðist um. Ekkert benti til þess að átök hefðu átt sér stað. Líklega hafði fórnarlambið staðið í eldhúsinu, heyrt eitthvað og ætlað að snúa sér við en þá fengið mikið högg á höfuðið. Konan hafði látist samstundis og hnigið niður. Hann settist á hækjur sér hjá líkinu og tók þá eftir óhreinindabletti á hvítu blússunni. Hann stakk í stúf við klæðnaðinn. Þetta var áreiðanlega vinnufatnaður hvítflibbakonu. Hún var í aðskorinni blússu, jakka, svörtu pilsi, háhælaskóm og sokkabuxum. Gljáandi svört handtaska lá á eldhúsborðinu og við hlið hennar farsími. Hafði morðinginn sparkað í konuna að verki loknu? Hann setti á sig einnota hanska í hvelli, opnaði handtöskuna gætilega og tók þaðan seðlaveski. Þar blasti við honum ökuskírteini í glærum plastvasa. Ljósmyndin virtist vera af hinni látnu. Seth skoðaði skírteinið vandlega. Konan hét Andrea Sloan, var dökkhærð með brún augu, í meðallagi há, þrjátíu og sex ára gömul og vildi gefa líffæri að sér látinni. Það var einum of seint í rassinn gripið. Hann setti veskið aftur í töskuna og virti fyrir sér andlit konunnar. Af hverju hafði Andrea Sloan verið myrt? Og af hverju þarna, heima hjá annarri konu? Höfðu þær ef til vill þekkst? Var þetta vinkona eða systir húsráðandans sem hafði komið að henni látinni?
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók