Flýtilyklar
Joanna Sims
Draumastúlkan
Lýsing
Jordan Brand opnaði fyrir bensíngjöfina á svarta Ducatimótor hjólinu sínu og brunaði yfir gatnamótin áður en ljósið
varð rautt. Hún hallaði sér fram og stýrði hjólinu á milli bílanna tveggja fyrir framan, ákveðin í að spara tíma með því að
búa sér til þriðju akreinina. Henni var sama þótt öðrum
ökumönnum líkaði ekki við það hvernig hún stytti sér leið.
Þetta var Kalifornía. Hér hafði enginn efni á því að kasta steinum.
Jordan fór fram úr skærgulum Escalade og beygði til hægri
inn á Broadway. Hún lét sem hún sæi ekki hámarkshraðaskiltið, enda þurfti stundum að brjóta svona veigalitlar reglur.
Hún gaf í, beygði til hægri og keyrði í öfuga átt eftir einstefnugötu. Hún vék sér fimlega hjá bíl sem kom á móti,
sveigði upp að gangstéttinni á stað þar sem ekki mátti leggja og
hemlaði snögglega. Síðan setti hún standarann á og drap á vélinni.
–Hvaða geðsjúklingur lagði til að þú fengir ökuleyfið aftur?
Jordan tók af sér hjálminn og brosti breitt til digra, húðflúraða mannsins sem stóð fyrir utan húðflúrsstofuna. –Hvort
okkar heldurðu að nái að verða gamalt, Chappy? Ökufanturinn
ég eða reykingamaðurinn þú?