Adam Monroe velti öxlunum, teygði á hálsinum til að reyna að losa um uppsafnaða spennu í hálsvöðvunum og reyndi að fela hversu örmagna hann var. –Doris, hversu margir sjúklingar bíða enn? –Aðeins einn, í skoðunarherbergi númer tvö. Doris, læknaritarinn leit á hann og gretti sig. –Þú borðaðir engan hádegismat, er það? –Nei. Adam stakk upp í sig kexköku um leið og hann náði í sjúkraskýrslu síðasta sjúklingsins.
Hún hunsaði hann því hún vildi ekki þurfa að útskýra fyrir honum að henni seinkaði vegna þess að það tafðist að fá útkomuna úr segulómuninni. Einkamál hennar komu honum ekkert við. Hún lét sem hún sæi ekki hvernig hann starði á hana og virti fyrir sér lista sjúklinganna sem skrifuð voru á stóra, hvíta töflu. –Ég sé að við erum með fullt hús.