Dr. Cassidy Mahoney hafði flúið borgina og flutt í smábæ í Cascade-fjöllunum. Þar hafði hún síst af öllu búist við að enda í fangelsinu. Þetta var fyrsta skipti hennar í fangelsi og fnykur af gömlu áfengi og einhverju alltof mannlegu fékk hana til að vona að þetta yrði það síðasta. Ekkert hefði getað búið hana undir hann... 190 sentímetra háan og herðabreiðan mann með grjótharða vöðva, svo fullan af testó- steróni að heill salur af femínistum hefði getað fallið í ómegin. Hann lá á mjóum bedda sem dugði ekki undir breiðar axlirnar og löngu leggina og söng um fallega senjórítu með leiftrandi augu og varir sem brögðuðust eins og fínasta vín. Gamli maðurinn í næsta klefa söng glaðlega með, hljómaði eins og ryðguð bílvél á leið upp fjallaskarð, en klefafélagi hans hraut svo hátt að rúðan í litla glugganum hátt uppi á veggnum nötraði. Cassidy hikaði í dyrunum, glennti upp augun og fannst hún vera stödd í kvikmynd án handrits. Allur bærinn, Crescent Lake, hafði verið eins og úr kvikmynd og hún átti enn erfitt með að trúa því að hana væri ekki að dreyma. Satt að segja hefði hún ekki getað ímyndað sér að fá lögreglufylgd á fógetaskrifstofuna eins og stórglæpamaður... þótt það væri aðeins til að veita fanga læknisaðstoð. Innar á ganginum bölvaði einhver hátt og sagði þeim að halda kjafti. Hazel Porter, fíngerða konan sem leiddi Cassidy í óvissuna, opnaði dyrnar betur og gaf henni merki um að elta. –Fullt hús í kvöld, sagði Hazel með sinni rámu reykingarödd. Hún hljómaði eins og hún hefði byrjað að reykja í vöggunni