Undanfarið ár hafði verið Dylan Jacobs erfitt, svo ekki væri dýpra í árinni tekið. Hann hafði ekki einasta komist að því að hann ætti barn, heldur að móðirin, sem hafði leynt hann barninu, lægi fyrir dauðanum. Hann langaði til að vera henni reiður fyrir hvort tveggja, en gremjan hafði fjarað út á leiðinni að spítalanum þar sem hún lá banaleguna. Og um leið og hann horfði í grænu augun dóttur sinnar, sem voru nákvæmlega eins og augun hans, bráðnaði hann fyrir henni. Það hafði verið auðvelt að heillast af Maribel. Hún var rjóð í kinnum, dökka hárið var liðað og hláturinn yndislegri en sólargeisli. Hins vegar hafði herþjónusta hans í Afganistan verið barnaleikur miðað við það að ala upp og annast tveggja ára telpu sem hafði nýlega misst allt sem hún átti. Eitt ár gat svo sannarlega skipt sköpum. Dylan settist á hækjur sér við enda gangsins, rétt utan sjónmáls, og hlustaði á hljóðið í rafmagnstannburstanum hennar Maribel uns það þagnaði. Næst heyrði hann létt fótatak hennar á bambusgólfinu á ganginum. Hann kannaðist við leikinn, enda höfðu þau farið í hann á hverjum morgni síðan hún fluttist til hans í Mason Ridge. Hún