Þegar Emily Watson flúði burt frá lífi sínu, gerði hún það með glæsibrag. Dökkbrúnar, þröngar gallabuxur, fjögurra tommu háir hælar, glitrandi og rjómagulur kjóll með grænt belti um mittið. Fötin voru frá hönnuði, skórnir sérhannaðir, en Emily var sama. Merkimiðarnir höfðu aldrei skipt hana máli og hluti af henni saknaði daganna þegar hún keypti gallabuxur hjá hjálpræðishernum og klæddist stuttermabolum úr bómull sem höfðu verið þvegnir svo oft að efnið var silkimjúkt. Hún setti tvær ferðatöskur í skottið á Volvonum sem hún hafði keypt, jafnvel þótt Cole hefði hatað stóra, kassalaga bílinn, og keyrði svo burt frá húsinu sem henni fannst ekki lengur vera heimili sitt. Fjórum tímum síðar keyrði hún á milli hæðanna í Brownsville, Massachusetts, svo framhjá glitrandi Barrow-vatni, uns trén gáfu eftir og í ljós kom langur malarvegur sem lá að gistihúsinu Piparkökunni. Lítið, handmálað skilti gaf upp nafn gistihússins. Málningin hafði dofnað með árunum. Hún renndi niður rúðunni og andaði að sér fersku, sætu haustlofti. Nú fannst henni hún vera heima hjá sér. Fann frið. Loksins. Það marraði í mölinni undir dekkjum Volvosins. Eftirvænting gagntók Emily þegar hún keyrði upp veginn. Loksins var hún komin aftur hingað, á eina staðinn þar sem vit