Flýtilyklar
Sue MacKay
Endurfundir í París
Lýsing
Tori Wells stóð rétt fyrir innan innganginn að stóra
fundarsalnum á Hotel de Nice og kyngdi kekki, reyndi að
halda ró sinni á meðan hún horfði yfir mannfjöldann og
hlustaði á þau ótal tungumál sem heyrðust. Það bætti ekki
orðspor hennar ef hún brosti eins og trúður.
Spennan sem hafði verið til staðar síðan hún flaug af
stað frá Auckland tveimur dögum fyrr var við það að láta
hana dansa á staðnum, í lárperugrænu skónum sem voru
glænýir og rándýrir. Franskir, auðvitað. Þeir kostuðu jafn
mikið og það kostaði að brauðfæða litla borg en hún hafði
ekkert samviskubit yfir því að hafa leyft sér að kaupa þá.
Alls ekkert.
Það hafði verið einfalt að samþykkja að flytja ræðu fyrir
allt þetta fólk. Jafnvel þótt hún efaðist um að heimsfrægu
sérfræðingarnir hefðu áhuga á því sem hjartasérfræðingur
frá Nýja-Sjálandi hefði að segja um hjartavandamál barna
sem þjáðust af gigtsótt, hafði hún ekki getað neitað boði
nefndarinnar. Hún hefði komið þótt Monsieur Leclare hefði
beðið hana að tala um sniglakapphlaup, tækifærið til að
heimsækja Frakkland hafði verið of freistandi. Hann hefði
getað sparað margar evrur ef hann hefði vitað að hún hefði
sætt sig við að gista í tjaldi á ströndinni, en hann hafði lofað svítu á fallegu hóteli við Miðjarðarhafið og hafði staðið
við það. Miðjarðarhafið. Spennan jókst.
Og svo... Hún brosti. Svo vildi hann að hún færi til Parísar, eftir ráðstefnuna, til að segja læknanemum frá starfi sínu.
Jeminn. París? Hve flott var það? Hún kreisti hendurnar
saman og herpti saman varirnar til að öskra ekki af gleði.