Flýtilyklar
Tina Beckett
Dularfulla stúlkan
Lýsing
Einhver var í hesthúsinu.
Miðað við höfuðhreyfingar hestsins hennar þá var einhver
þarna. Trisha Bolton lét afturfót hans hvíla á læri sínu og hikaði. Hún hélt á hófjárninu og hlustaði. Frábært. Það hafði tekið
nokkurn tíma að fá Brutus til að lyfta síðasta fætinum svo hún
gæti klárað að skrapa hófana. Hún vildi ekki gefa honum til
kynna að hún væri búin fyrr en verkinu væri í raun lokið. Hún
efaðist um að hann yrði samstarfsfús í annarri skipti... þó að
hún byði honum gulrót.
Brutus fnæsti og færði þyngdina yfir á hina hliðina. Kannski
var hann bara óþolinmóður og vildi komast út í hagann að bíta
eins og hinir hestarnir.
–Rólegur, vinur.
Hún lagfærði gripið á hófinum svo að hann rynni ekki af læri
hennar og ofan á fótinn á henni. –Við erum alveg að verða búin.
–Halló? hrópaði hún til öryggis. –Ég er hérna í stíunni.
Enginn svaraði.
Hún hleypti brúnum er hún heyrði mjúkt fótatak í fjarska
sem nálgaðist hana. Það var þá einhver þarna. Það var stigið
gætilega til jarðar og það heyrðist lítið í skósólunum. Þetta
voru greinilega ekki reiðstígvél.