Flýtilyklar
Örlagasögur
Aftur heim
Lýsing
Bo McBride sleppti bensíngjöfinni og Harley-vélhjólið
hægði ferðina um leið og hann ók framhjá veðruðu skilti sem
á stóð Lost Lagoon, íbúafjöldi 705.
Maginn í honum herptist saman þegar fenjalyktin umlukti
hann og réðst inn í lungun svo það var erfitt að anda í gegnum kvíðann og reiðina sem fylgdi lykt heimabæjarins.
Hvað flesta varðaði voru tvö ár síðan hann hafði síðast
verið í Lost Lagoon, Mississippi. Aðeins tvær manneskjur
vissu af mánaðarlegum heimsóknum hans til móður sinnar,
leynilegum heimsóknum þar sem hann kom og fór í skjóli
myrkurs.
Hann væri ekki hér nú ef móðir hans hefði ekki óvænt
dáið tveimur dögum fyrr. Hjartaáfall. Besti vinur hans,
Jimmy Tambor, sem hafði flutt inn í húsið hans þegar Bo fór
úr bænum, hafði fært honum fréttirnar.
Það hafði tekið Bo heila tvo daga að melta þær fréttir að
móðir hans væri farin og einn dag enn að undirbúa allt fyrir
starfsmenn sína svo hann gæti farið. Útförin yrði næsta dag.
Eftir það gæfi hann sér nokkra daga til að ganga frá dánarbúinu og svo kæmi hann sér burt frá bænum sem hafði kostað hann tvö síðustu árin í lífi móður sinnar.