Flýtilyklar
Örlagasögur
Voðaverk
Lýsing
Eftir að hafa rennt augunum yfir biðsvæðið, gekk Nate Matthews
löngum skrefum lengra inn í flugstöðina í Shatterhorn, Nevada.
Kona sem stóð við afgreiðsluborð brosti kvíðin til hans þegar
hún leit upp frá tölvunni sinni. Líklega var þetta ömurlega febrúarveður að skemma áætlanirnar.
–Ég er dálítið seinn, útskýrði hann. –Ég átti að hitta vini hérna
en sé þá ekki. Geturðu sagt mér hvort þeir séu komnir?
–Í þessu veðri? Varla, sagði hún. –Engar einkaflugvélar hafa
lent síðasta klukkutímann. Við skulum sjá. Hvað heita vinir þínir?
–Jessica og Alex Foster frá Blunt Falls, Montana. Hann flýgur
Cessnu sem hann á sjálfur.
Hún leit á tölvuskjáinn, blaðaði svo í pappírum og fór að tala
við mann sem sat við skrifborð á bak við glervegg. –Herra Foster
sendi inn flugáætlunina sína en það eru engin gögn um að hann
hafi lent. Þú virðist hafa komið á undan honum. Ég myndi þó
varla búast við honum í kvöld. Veðrið versnar hratt, sérstaklega
uppi í háloftunum.
Nate hallaði sé að afgreiðsluborðinu eitt augnablik. Bílferðin
hafði ekki gengið áfallalaust; reyndar hafði hann verið heppinn að
lifa af þegar dekk sprakk og hann lenti næstum í árekstri. Svo
hafði hann komist að því að varadekkið var líka sprungið. Að fá
dráttarbíl, koma bílnum til Vegas og láta gera við dekkið hafði
tekið tíma. Alex og Jessica hefðu átt að lenda áður en stormurinn
kom.
Maðurinn fyrir aftan hann ræskti sig og Nate vék frá afgreiðsluborðinu. Hann fann rólegt horn og hringdi heim til Alex,
til að athuga hvort nokkuð hefði komið upp á. Jessica svaraði.
–Er allt í lagi? spurði hann eftir að hafa kynnt sig.