Flýtilyklar
Ást og afbrot
Illt blóð
Lýsing
Hann var óþekktarangi.
Það myndu félagar hans í alríkislögreglunni segja ef þeir sæju
til hans núna. Hann var á leið inn í einn salinn í háskólanum þar
sem fyrirlestur var um það bil að hefjast.
Það var langt um liðið síðan Mark Flynn hafði verið í slíku
umhverfi. Þegar hann opnaði dyrnar heyrði hann skvaldrið í fróðleiksfúsum nemendum og sá gljáandi viðarpúltið fremst í stofunni. Hann minntist þess hvað honum hafði þótt gaman í háskóla
og notið þess að drekka í sig þekkinguna.
Skólafélagar hans höfðu kallað hann Heilann, en há greindarvísitala hans og fróðleiksþorsti höfðu gert það að verkum að
hann undi sér betur í alríkislögreglunni en fjármálageiranum.
Salurinn minnti á leikhús og setið var í flestum sætum. Þar eð
hann ætlaði ekki að hlýða á fyrirlesturinn til enda valdi hann sér
sæti aftarlega í salnum.
Eftir smástund myndi félagsfræðiprófessorinn Melinda Grayson hefja fyrirlestur sinn. Hann vissi ekki hvert efni dagsins væri,
aðeins að fyrirlesturinn fjallaði um siðblindingja. Hann var heldur ekki hingað kominn til að hlusta. Hann ætlaði að fylgjast með,
mynda sér skoðun og kanna hvort hugboð hans reyndist rétt.
Flestir félaga hans voru á því að ekkert væri að marka það.
Darby-háskóli í bænum Vengeance í Texas, skammt frá Dallas,
hafði verið heppinn að fá Melindu til starfa. Hún var mjög hátt
skrifuð og hefði getað fengið vinnu hvar sem henni sýndist. Mark
þótti kyndugt að hún skyldi hafa valið Darby, en oft var val fólks
einkennilegt og einnig aflið sem knúði það áfram. Hann vissi til
dæmis að margir vina hans og samstarfsmanna litu á hann s