Flýtilyklar
Ást og afbrot
Innsæi
Lýsing
Lík móður hennar dinglaði fyrir framan hana eins og leikbrúða í fullri
stærð sem beið eftir að brúðustjórnandinn togaði í spottana og vekti
hana til lífsins. En það yrði ekki.
Munnurinn á Kylie Grant opnaðist í hljóðu öskri þegar líkami móður
hennar sveiflaðist í áttina til hennar. Höfuðið á brúðunni kipptist upp á
við og augun opnuðust snöggt.
Þú hefðir átt að vita þetta. Þú hefðir átt að vita þetta.
Kylie reyndi af öllum mætti að líta af ásakandi verunni fyrir framan
sig. Ef hún liti undan myndi veran hverfa. Ef hún liti undan myndi hún
vakna af martröðinni. Ef hún liti undan fengi hún aldrei svörin sem hún
þarfnaðist.
Kylie tókst að gefa frá sér hálfkæft óp og settist snöggt upp í hótelrúminu.
Hún var kaldsveitt og skalf.
Núna. Hún varð að gera eitthvað núna.
Hún velti sér fram úr rúminu, pírði augun á græna stafina á vekjaraklukkunni.
Ekki beinlínis sá tími þegar allar yfirnáttúrulegar verur fóru á
kreik en nógu framorðið til að hún gæti laumast óséð inn í Columbellahúsið
meðan ferðamennirnir borðuðu og drukku.
Hún skvetti köldu vatni framan í sig, stakk fótunum í sandalana og
greip handtöskuna sína af stólbakinu. Hún þurfti ekkert annað. Öll þau
verkfæri sem hún þurfti að nota voru í höfði hennar.
Hún læddist út úr hótelherberginu og ýtti á takkann til að kalla
lyftuna til sín. Eftir stutta ferð niður um þrjár hæðir opnuðust dyrnar út í
anddyrið.
Kylie þeyttist út úr lyftunni og rakst utan í hávaxinn, þrekinn mann
sem var á leiðinni inn.
Hún leit upp, langt upp. –Afsakið