Flýtilyklar
Ást og óvissa
Á veiðum
Lýsing
–Það er ástæða fyrir því að ég fór snemma á eftirlaun, tautaði Glenn um leið og hún gekk burt. Lindsay skildi hann vel. Félagsráðgjafar kulnuðu fljótt og hratt í starfi, einkum þeir sem voru í fremstu víglínu. Kannski var tímabært fyrir hana að huga að því að skipta um starf og fá sér vinnu þar sem hún þurfti ekki að horfa upp á börn með fjólubláa marbletti, glóðaraugu og skörð í munni þar sem hnefar höfðu slegið úr þeim tennurnar eða ungar stúlkur sem geymdu hræðileg leyndarmál. Hún botnaði ekkert í því að Glenn skyldi hafa þraukað í öll þessi ár. Hún dáði hann og var fegin því að hann skyldi enn koma við á skrifstofunni annað slagið þó að hann væri hættur að vinna til þess að heilsa upp á fólkið og styðja þau sem voru sérlega gröm eða beygð. Þegar hún var komin á spítalann hélt hún beinustu leið að slysadeildinni, þar sem hún fékk að hitta Shane. Margoft hafði hún séð börn og unglinga sem voru illa á sig komin eftir barsmíðar, en áfallið var engu að síður það sama í hvert skipti. Andlitið á Shane var svo bólgið og marglitt að hún ætlaði ekki að þekkja hann. En þrátt fyrir áverkana og þjáningarnar brosti hann við henni. Hann virti hana fyrir sér með auganu sem hann gat enn opnað. –Ungfrú Engle? –Shane, sagði hún og gekk að rúminu. Hún var að því komin að taka í höndina á honum en sá þá að hún var þakin umbúðum. –Mér þykir þetta voðalega leitt. Mér datt ekki í hug að þetta gæti gerst. –Mér að kenna, muldraði hann. –Ég hélt bara… Hann þurfti ekki að ljúka setningunni. Lindsay vissi hvað hann ætlaði að segja. Eins og fleiri hafði hann haldið að föðurbróðirinn væri góður maður.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók