Flýtilyklar
Ást og óvissa
Athvarf í Montana
Lýsing
Julie Chilton strauk rökum lófunum við pilsið
sitt og dró andann djúpt að sér. Þegar hún talaði,
titraði röddin töluvert. –Ég þarf að segja þér
nokkuð.
Yfirmaður hennar, James Killigrew prófessor,
benti á stól fyrir framan glerskrifborðið sitt. –Þú
virðist vera í uppnámi, Julie. Fáðu þér sæti.
Hann var hár maður og undirstrikaði útlit
menntamannsins með tvídjökkum og gleraugum. Hátt ennið teygði sig upp í hvítt og úfið hár
en það var röddin, framar öllu, sem krafðist
athygli. Eðalvín gat búið yfir sól, ávöxtum og
jörð. Rödd hans bjó yfir visku, öryggi og
forvitni. Engin furða að hann ætti auðvelt með
að auka tekjurnar fyrir kennslu í stjórnmálavísindum, með fyrirlestrum og sjónvarpsþáttum.
Það var sá hluti lífs hans sem Julie hafði verið
ráðin til að sinna og hún elskaði starfið. Jæja,
hafði elskað það þar til fyrir tveimur vikum...
–Ég veit ekki hvar ég á að byrja, viðurkenndi
hún.
Hann spennti greipar og brosti hvetjandi til
hennar. Hún hefði gefið nær hvað sem er til að
forðast þessa stund, en það var ekki um neitt að
velja. Hættu að tefja.
–Fyrir tveimur vikum settist maður við hlið
mér í strætó á leiðinni heim, sagði hún. –Hann
sýndi mér skilríki og fór að tala, röddin var svo
lág að ég þurfti að leggja mig fram til að heyra
hana. Það var ljóst að hann vissi hver ég var og
fyrir hvern ég vann.
–Strætó? En sérstakt. Hvað sagði hann?
–Hann sagðist vera alríkisfulltrúi sem stýrði
sérstakri deild sem sérhæfði sig í að rannsaka
pen ingabrask.
Hvítar augabrúnir Killigrews skutust upp á
ennið. –Hvað sagðirðu?