Flýtilyklar
Ást og óvissa
Saman á ný
Lýsing
Engin ljós? Af hverju?
Íbúð vinnuveitanda hennar var aðliggjandi herbergi Lauru og hún tók kunnugleg skrefin í flýti,
hjartað sló hratt af áhyggjum út af frú Priestly. Gamla
konan var ekki góð til heilsunnar og það var ómögulegt að vita hvað hafði gerst eftir álag kvöldsins.
Það leit út fyrir að rúmið væri mannlaust. Laura
hafði áhyggjur af hjartaáfalli eða mjaðmabeinsbroti
og horfði yfir persnesku motturnar. –Frú Priestly?
Röddin svaraði og það vottaði fyrir streitu.
–Hérna, við gluggann.
Laura sá loksins í rýran líkama frú Priestly sem
sat í stól með útsýni yfir garðinn bak við húsið sem
stóð nálægt ánni. Í dagsbirtu var útsýnið í miklu
uppáhaldi hjá frú Priestly.
En þetta var um miðja nótt og ekki heldur dæmigerða haustnótt, ekki einu sinni fyrir Idaho. Það
hafði hvesst fyrr um kvöldið og það eina sem sást nú
út um gluggann voru iðandi skuggar af greinum og
runnum sem vindurinn feykti til. –Þú hefðir ekki átt
að fara á fætur án þess að kalla á mig til að hjálpa
þér, sagði Laura mjúklega. –Til þess er ég hérna.
Frú Priestly greip í handlegginn á Lauru. –Ég
held að ég hafi séð morð.
–Hvað segirðu! Hvar?
Gamla konan benti með hnýttum fingri á gluggann. –Þarna úti, við gosbrunninn. Sérðu lík?
Laura rýndi út í nóttina en skuggarnir voru of
dimmir. –Nei. Sérð þú það?
Frú Priestly teygði fram álkuna en hristi loks
höfuðið. –Nei, ekki núna.
–Segðu mér frá því sem gerðist, sagði Laura hvetjandi, vonaði að frú Priestly myndi sannfærast um að
þetta hefði verið martröð ef hún segði frá atburðum.
–Jæja, ég gat bara ekki sofið. Þú veist hvernig
það er þegar hugurinn er endalaust á ferð og flugi og
maður óskar þess að hafa ekki sagt þetta eða hitt?
–Ó já, sagði Laura og kraup með erfiðismunum
við hliðina á stól gömlu konunnar. –Já, ég þekki
tilfinninguna.