Flýtilyklar
Ást og undirferli
Sjö dagar til stefnu
Lýsing
–Já. Hún virðist hafa verið færð í hana eftir að hún lést og hárið er kolla. Stúlkan var ljóshærð.
–Alríkislögreglan hefði samt ekki áhuga á þessu máli. Ekki að svo stöddu, að minnsta kosti.
–Ég hafði hana ekki í huga, heldur þig. Dom renndi tveimur plastpokum með sönnunargögnum eftir borðinu.
–Við fundum þetta bréf hjá líkinu. Skíthællinn lofar sex táknum á sex dögum. Þann sjöunda muni hann myrða aftur. Svo var hann svo elskulegur að skilja eftir tákn númer eitt. Mynd af stúlkunni þinni.
Hjartað í Nick stöðvaðist andartak þegar hann sá myndina af hinni svarthærðu Libby Andrews. Hún var að koma út úr dómhúsinu, klædd blárri dragt. Hún horfði í auga myndavélarinnar gegnum gleraugu með dökkri umgjörð. Myndin var dæmigerð fyrir Libby. Stúlkan, sem sumir í Arbor Falls kölluðu „ísprinsessuna“, var kynþokkafull í dragtinni sinni.
–Hún er ekki stúlkan mín, muldraði hann.
–Myndin virðist hafa verið rifin úr blaði, bætti hann við.
–Já. Hún er úr Journalþriðjudaginn tíunda apríl,
blaðsíðu eitt. Myndin er tekin við Brislin-réttarhöldin. Þú manst eftir öldungadeildarþingmanninum sem var sakfelldur fyrir spillingu. Libby sótti hann til saka.
Nick vissi allt um málið. Þó að hann byggi í Pittsburgh hélt hann tengslum við Arbor Falls og komst ekki hjá því að frétta af réttarhöldunum. Brislin var talinn eiga bjarta framtíð í stjórnmálum þar til Libby brá fyrir hann fæti. Hann ýtti plastpokunum aftur til Doms.
–Ég veit ekki hvað þú vilt að ég geri. Þetta er þitt mál. Leystu það.
Dom hrukkaði ennið.
–Sex dagar, Nick. Við höfum ekki mikinn tíma.
–Hvað viltu að ég geri í því? Það er fimm tíma akstur heim til mín. Ég hef öðrum hnöppum að hneppa. Veit Libby af þessu?