Flýtilyklar
Elizabeth Heiter
Flóttaleiðir
Lýsing
Desparre í Alaska var svo afskekkt að það var ekki einu sinni á kortum en eftir að hafa verið á flótta í tvö ár þá fann Sabrina Jones loksins fyrir öryggi. Hún var ekki viss hvenær hún fór að finna fyrst fyrir örygginu en hún fór smátt og smátt að finna minna fyrir kvíðanum. Þörfin til þess að vera á verði á hverjum degi hafði minnkað líka. Hún mundi ekki heldur nákvæmlega hvenær martraðirnar hættu en það var meira en mánuður síðan hún hrökk upp um miðja nótt í svitabaði vegna þess að eltihrellirinn hennar var að reyna að drepa hana eins og hann gerði við Dylan. Sabrina gekk um kofann sem hún hafði tekið á leigu fyrir sex mánuðum síðan. Einn af mörgum felustöðum síðastliðin tvö árin en þessi var öðruvísi. Hún opnaði dyrnar og steig út á pallinn og fann hroll fara um sig. Það var aldrei heitt í Alaska en það skipti engu máli. Ekki þegar hún gat staðið þarna og hlustað á fuglana syngja í fjarlægð og andað að sér fersku loftinu sem var svo ólíkt loftinu í stórborginni sem hún hafði andað að sér allt sitt líf. Skógurinn fyrir aftan kofann virtist endalaus og einangrunin á þessum stað hafði gefið henni hugarró sem hún hafði ekki upplifað lengi. Það bjó enginn nálægt henni. Heimreiðin að kofanum var löng og kofinn var vel falinn í skóginum. Það þurfti að vita af honum til þess að komast að honum. Hún var þónokkra vegalengd frá bænum en hún heyrði í bílunum fara framhjá.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók