Flýtilyklar
Horseshoe Creek Hetjurnar
Illur unnusti
Lýsing
Alla ævi hafði hann litið upp til Joes McCullen, dáðst að ást föður síns á náttúrunni og stjórnunarháttum hans á ættar-
óðalinu, Skeifulæk. Það hafði gengið í erfðir mann fram af manni og gert sérhvern eiganda þess að sönnu karlmenni.
Pabbi hans var feikilegur harðjaxl og hafði lagt hart að sér alla tíð. Hann hafði ræktað hesta og nautgripi og komið fram við vinnufólk sitt af virðingu og myndugleika.
En bráðum færi hann yfir móðuna miklu og Maddox yrði að taka við búinu. Hann var svo sem undir það búinn. Búgarðurinn var hluti af lífi hans og tilveru. Það gæfi lífi hans tilgang að annast hann og gæta öryggis bæjarbúa um leið.
Hann mætti Mary, ráðskonunni og eldabuskunni sem hafði að miklu leyti alið hann upp, við dyrnar að herbergi föður síns. Mary var lágvaxin, feitlagin og einbeitt kona sem hafði vafið hann örmum síðan hann var lítill.
–Hvernig hefur hann það?
–Hann hvílist, svaraði hún og tók upp bakka með tekatli og tómum bolla. –Hann vill gjarnan hitta þig.
Maddox barði laust að dyrum, opnaði þær svo og beitti sig hörðu til að láta ekki breytingarnar snerta sig of djúpt sem orðið höfðu á þessum stóra, sterka manni sem hafði kennt honum að skjóta af riffli, sitja hest og snara kálfa. Pabbi hans hafði horast enn meira en áður, augun voru hálfsokkin og hönd hans skalf er hann hóstaði og bar hana að munni sér.
Fari það kolað. Maddox var maður aðgerða og athafna.
Hann leysti vandamál fólks. Hann þoldi ekki að vera svona
bjargarlaus.