Flýtilyklar
Julie Anne Lindsey
Yfirhylming
Lýsing
Violet Ames ók rólega eftir kunnuglegum hlykkjóttum veginum í River Gorge, Kentucky. Hún þerraði tárin og bað. Það voru mörg ár síðan hún kom síðast í afskekkta bæinn í fjöllunum þar sem amma hennar hafði alið hana upp og svona hafði hún ekki hugsað sér að snúa aftur. Í hennar útgáfu voru endalaus faðmlög og þrefaldur skammtur af súkkulaðikökunni hennar ömmu. Það yrði ekkert slíkt í kvöld. Violet hafði athyglina á dökkum sveitaveginum fyrir framan sig og líka á sofandi barninu fyrir aftan sig. Maggie var 8 mánaða gömul og svaf róleg í litla bílstólnum. Þreytan hafði orðið tárunum yfirsterkari þegar bíllinn ók út af bílastæðinu við sjúkrahúsið. Violet nuddaði augun og reyndi að halda ró sinni en þetta hafði verið erfiður dagur. Það hafði verið hringt af sjúkrahúsinu um morguninn og henni sagt að amma hennar, 78 ára gömul ekkja, hefði fallið úr stiga í hlöðunni og næstum dáið. Þetta var stórundarlegt. Hlaðan hjá ömmu hennar var gömul og hafði ekki verið notuð eftir að afi hennar dó fyrir mörgum árum síðan. Af hverju hafði amma hennar verið þar inni og af hverju hafði hún verið uppi í stiga? Þarna var ekkert sem þurfti stiga til að komast að nema gamla heyloftið og þar var ekkert nema uppsafnað ryk margra áratuga. Violet nuddaði auma vöðvana í hálsinum aftanverðum og öxlunum með annarri hendinni og hélt þétt um stýrið með hinni. Hún gat ekki melt allt sem hafði gerst þennan hræðilega dag. –Hvað var hún eiginlega að gera? hvíslaði Violet út í milt sumarloftið sem streymdi inn um rifuna á bílglugganum
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók