Flýtilyklar
Rita Herron
Dauðadómurinn
Lýsing
Blóðslettur á timburgólfi og veggjum. Svo mikið blóð.
Öskrið sat fast í hálsinum á Avery Tierney, níu ára. Fósturfaðir
hennar, Wade Mulligan, lá á gólfinu. Máttlaus. Hjálparvana. Það
blæddi úr honum.
Augun voru þanin. Hvíturnar eins og mjólk á litinn. Varirnar bláar.
Skyrtan rifin eftir óteljandi hnífsstungur.
Það var kalt í herberginu. Vindurinn hvein eins og draugur í gamla
húsinu. Það skrölti í gluggarúðum. Marraði í gólfinu.
Hún skalf og nötraði af hryllingi.
Svo af létti.
Gamli og illgjarni yfirgangsseggurinn gat aldrei meitt hana aftur.
Aldrei komið inn í svefnherbergið hennar. Aldrei hvíslað ljótum hlutum í eyrun á henni.
Aldrei neytt hana til að gera þessa hluti...
Það heyrðist hljóð. Hún neyddi sig til að líta af blóðugri kássunni
og svo upp. Hank bróðir hennar stóð við hliðina á líkinu.
Með hníf í hönd.
Hann rumdi, lyfti hnífnum og stakk Wade aftur. Líkami Wade
kipptist til. Hank gerði þetta aftur. Aftur og aftur.
Blóðið draup af skaftinu og hnífsblaðinu. Meira blóð spýttist á
skyrtuna hans. Hendurnar voru útataðar.
Augun voru tryllingsleg. Spennt. Full af reiði.
Hún opnaði munninn til að öskra aftur en Hank lagði fingur á varirnar og hvíslaði, –uss.
Avery kinkaði kolli en leið eins og hún þyrfti að kasta upp. Hún
vildi að hann hætti.
Hún vildi að hann stingi Wade aftur til að hann væri örugglega dáinn.
Sírena vældi fyrir utan. Blá ljós snerust, skinu inn um gluggana
framan á húsinu.
Hank leit snöggt við, óttaglampi í augunum.
Svo var dyrunum hrundið upp og tveir lögreglumenn komu æðandi
inn.
Hank lét hnífinn detta á gólfið svo það glamraði í honum og reyndi
að flýja. Stærri lögreglumaðurinn náði taki um mittið á honum.