Flýtilyklar
Rita Herron
Gljúfrið
Lýsing
Kelly Lambert vildi ekki deyja.
En góða mannveran, sem hafði boðið henni far þegar bíllinn
hennar bilaði fyrir utan Sunset Mesa og hún hafði óttast að
þurfa að ganga eftir fáförnum vegi í myrkri, hafði reynst vera
brjálæðingur.
Fúll andardráttur barst að kinninni á Kelly og hún kúgaðist.
–Gerðu það... bað hún.
En hún náði ekki að segja fleira, því að hendurnar hertu
beltið um hálsinn á henni. Steinar ultu undan fótum hennar
þegar árásarmaðurinn dró hana nær gilbrúninni og neyddi hana
til að horfa niður á klettana á botni gilsins.
Tugir metra skildu hana og klettana að. Jafnvel þótt henni
tækist að lenda milli kletta yrði fallið henni að bana.
–Þarna áttu heima, tautaði tryllingslega röddin. –Vondar
stelpur eins og þú eiga skilið að deyja.
–Nei, hættu, gerðu það, hvíslaði hún. –Af hverju ertu að
gera mér þetta?
Reiðileg augu mændu á hana. –Þú veist það.
Kelly reyndi að ná andanum, en leðrið hertist sífellt meira að
hálsinum á henni.
Hún vissi það ekki. Vissi ekki hvers vegna þessi mannvera
vildi hana feiga. Eða nokkur maður yfir höfuð.
Árásarmaðurinn ýtti henni nær barminum. Fæturnir á Kelly
dingluðu fram af brúninni eins og á tuskudúkku.
Hún barðist um enn á ný og reyndi að sleppa, en ólyfjanin
sem hún hafði fengið gerði hana of veikburða. Það var vonlaust
að berjast á móti. Hún gat hvorki hreyft hendurnar né sparkað
með fótunum.