Flýtilyklar
Brauðmolar
Örlagasögur
-
Björgun í Alaska
Hún heyrði umtalið um leið og hún kom í bæinn. –Þetta er hún. Stelpan sem var rænt og fannst fyrir fimm árum síðan. –Sú sem drap nærri því systur sína? Alanna reyndi að hundsa augnaráð kvennanna við búðina. Starandi augnaráð og slúður áttu það til að draga fleira fólk að í Desparre, Alaska. Alanna horfði niður og langaði til þess að hverfa og hraðaði sér út. Hún fann augun borast í bakið á sér. Hún fann andardráttinn aukast og svitann spretta af enninu á sér. Þetta voru aukaverkanir þess að senda „foreldra“ sína sem höfðu alið hana upp í 14 ár í fangelsi og flytja síðan í annað fylki til fjölskyldu sem hún reyndi að muna eftir en passaði aldrei í aftur. Aukaverkanir þess að forðast blaðamenn sem vildu fá hennar hlið á málinu. Hún heyrði raddirnar dofna um leið og konurnar færðu sig innar í kjörbúðina sem var staðsett við allar aðalbyggingar Desparre. Þetta var svo ólíkt Chicago, borgarinnar sem hún hafði horfið til eftir að hafa alist upp í Alaska með fjölskyldunni sem hafði rænt henni. Jafnvel þó að hún hafi ekki komið til Alaska í fimm ár þá fannst henni samt eins og hún hafi snúið aftur heim. Alanna dró djúpt andann og lokaði augunum. Kunnugleg hljóð og lykt róaði hana. St. Bernhard hundurinn hennar þekkti einkennin þegar kvíðinn læddist að henni og settist þétt upp við hana. Hún heyrði Chance urra lágt mínútu seinna og hún opnaði augun. St. Bernhard hundurinn var blíður risi og var líklegri til þess að dilla skottinu og bíða eftir magaklóri en að urra að einhverjum en stærð hans og viðvörun var nóg til þess að láta fólk bakka.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Systrabönd
„Ég er á lífi.“ Fjögur einföld orð á bréfsnepli. Undirrituð af systur sem Kensie Morgan hafði ekki séð í fjórtán ár. Og þessi bréfsnepill varð til þess að Kensie lagði snarlega upp í fimm þúsund kílómetra ferðalag. Hún hafði skilið eftir skilaboð í talhólfi yfirmanns síns þar sem hún sagðist þurfa stutt frí. Síðan hringdi hún í fjölskyldu sína en þau sýndu þessu lítinn skilning. En í þetta sinn varð Kensie að trúa því að vísbendingin væri raunveruleg. Eftir langt og strangt ferðalag og ótal áningarstaði steig hún loks út úr flugvél í Alaska. Þetta var í byrjun október og hitastigið var miklu lægra en hún hafði reiknað með. Það kólnaði meira að segja enn meir á meðan hún gekk frá leigusamningi á pallbíl áður en hún hélt af stað í norður átt. Bærinn Desparre í Alaska var ekki beint nafli alheimsins og fannst varla á landakortum. Eftir að GPS tækið gafst upp og hún hafði farið ótal krókaleiðir tókst henni loks að finna hann með aðstoð heimafólks sem varð á vegi hennar. Kensie nötraði og skalf þegar hún steig út úr bílnum eftir fjögurra klukkustunda ferðalag. Vetrarjakkinn hennar dugði skammt í þessum kuldanæðingi svo hún lyfti kraganum um leið og sítt hár hennar feyktist fyrir andlitið. Það var engin leið að forðast snjóskaflana svo hún varð að klofast í gegn um þá. Hennar fyrsta verk eftir stutta heimsókn á lögreglustöðina yrði að kaupa ný kuldastígvél.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Glæpaverk
Þú hefur forðast mig. Dev Wyatt leit upp með bjórflöskuna í hendinni og horfði á konuna sem hann hafði vissulega gert sitt besta til að forðast. Hann vissi reyndar ekki hvort hún átti við að hann hefði forðast hana í brúðkaupsveislu bróður hans og fóstursystur hennar núna í kvöld eða bara almennt... því hvorttveggja var rétt. Hann hafði þó sérstaklega gert sér far um að forðast hana núna í kvöld vegna þess að kjóllinn sem hún klæddist sýndi einum of mikið af öllu því sem hann hafði reynt sitt besta til að sjá ekki síðustu árin. Sarah Knight var vægt sagt sjóðandi heit en hann átti ekkert með að taka eftir ólýsanlega flottum líkama hennar sem eldrauður silkikjóllinn gerði lítið annað en að undirstrika enn frekar. Hann átti yfirleitt ekkert með að hugsa um hana en hafði þó um lítið annað hugsað allan síðastliðinn mánuð þar sem hún hafð svo að segja setið um hann. Hún var nágranni hans, fósturdóttir manns sem hafði svo að segja gengið honum í föðurstað, hún var allavega átta árum yngri en hann og í ofanálag voru þau nánir samstarfsfélagar vegna þess að sem nágrannar hjálpuðust þau að við störfin á búgörðunum. Dev fékk sér stóran sopa úr bjórflöskunni og leit síðan á hana þungur á brún. ‒Auðvitað forðast ég þig, Sarah. Þú hefur augljóslega gjörsamlega tapað glórunni og ég er orðinn þreyttur á að verjast stöðugum tilraunum þínum til að fá mig til að fallast á þessa biluðu hugmynd þína.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Baráttukjarkur
Rachel Knight hafði mátt þola martraðir um atburðinn þegar hún missti sjónina að miklu leyti alveg frá því að hún var hrædd og illa leikin þriggja ára gömul telpa. Draumurinn var ævinlega sá sami. Fjallaljón. Skelfing. Og sársaukinn þegar árásin var gerð. Hún vissi að þetta hafði gerst. Hvað annað hefði getað ráðist á hana með þessum hætti? Allir voru sannfærðir um þannig væri málið vaxið. Hún hafði einhvern veginn lallað út í haga og lent í klónum á óargadýri. En í draumunum heyrði hún alltaf rödd. Það var ekki faðir hennar og heldur ekki móðir hennar sáluga. Það var enginn sem hefði átt að vera þarna þetta kvöld. Þetta var ókunn rödd. Rachel greip andann á lofti um leið og hún opnaði augun. Hjartað sló ört og sængurfötin voru blaut af svita. Þetta var draumur. Ekkert annað. Hún botnaði hins vegar ekkert í því að draumurinn skyldi enn sækja á hana tuttugu árum eftir árásina. Sennilega var ástæðan öll hættan sem fjölskylda hennar hafði staðið frammi fyrir upp á síðkastið. Þó að henni þætti afar vænt um Wyatt-fólkið sem bjó á næsta bæ, jafnt hina traustu Pauline ömmu sem barnabörnin hennar sex sem öll voru löggæslumenn, ollu tengsl þeirra við hættulegan vélhjólahóp því að vandræðin virtust elta þau hvert sem þau fóru. Í ár höfðu fóstursystur hennar líka komist í hann krappan. Þær höfðu lent í háska ásamt Wyatt-bræðrunum og síðan orðið ástfangnar, þvert á allar spár
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Glæpahneigð
Hann var góður maður. Hann trúði á rétt og rangt. Hann trúði því statt og stöðugt að hann væri snjallari, betri og sterkari maður en faðir hans, sem verið var að flytja í öryggisfangelsi einmitt núna vegna ýmissa saka, til dæmis morðtilraunar. Tvíburabróðir Bradys hafði næstum dáið af völdum Ace. Þegar Brady hugsaði um það langaði hann enn frekar til þess að verða drukkinn. Brady óskaði þess að geta treyst því að ekki myndi stafa ógn af Ace Wyatt í framtíðinni. Faðir hans var hvorki ofurmenni né yfirskilvitleg vera, en stundum var eins og karlinn hefði á honum tak, alveg sama hve oft Brady reyndi að fullvissa sig um að svo væri ekki. Allt yrði betra þegar hann færi að vinna aftur. Myrkar hugsanir og hugboð um að dómsdagur væri í aðsigi myndu hverfa þegar hann kæmi til starfa á ný. Það hafði komið sér illa að verða fyrir skoti, en hann hafði tekið hlutverk sitt í löggæslunni í Valiantsýslu í Suður-Dakóta nógu alvarlega til að vita að það var alls ekki óhugsandi að særast eða jafnvel bíða bana við skyldustörf. Hann hafði fengið í sig kúlu þegar hann aðstoðaði við björgun tilvonandi mágkonu sinnar. Það var engin skömm að því og hann iðraðist einskis.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Blóraböggull
Felicity Harrison hafði fljótlega áttað sig á tvennu eftir að hún fluttist til Duke og Evu Knicht einungis fjögurra ára gömul, handleggsbrotin og með stórt glóðarauga eftir síðustu umferð misþyrminga blóðföður síns. Í fyrsta lagi að hún elskaði hreint og beint útiveru. Hún gæti gengið um óbyggðirnar dögum saman ef því var að skipta og svæfi gjarnan undir stjörnubjörtum himni á hverri nóttu. Síðara atriðið hafði tekið hana svolítið lengri tíma að átta sig á en það hafði hún ekki gert fyrr en snemma á unglingsárunum... að hún var bálskotin í Brady Wyatt. Hann hafði hinsvegar aldrei sýnt henni minnsta áhuga umfram fóstursystur hennar en þrátt fyrir að vera að nálgast þrítugt hafði Felicity enn ekki gefið upp alla von um að Brady tæki einhvern tíma eftir henni. Hún var sannfærð um að enn væri von og þá ekki síst vegna þess að hún hafði gert stórar breytingar í lífi sínu síðustu árin. Mikil feimni og stam hrjáði hana þó enn og þá yfirleitt á allra verstu augnablikum. Hvorttveggja hafði gert það að verkum að bæði menntaskólaárin og háskólaárin höfðu verið henni hræðilega erfið. Kúvending hafði þó orðið á því þegar hún fann í framhaldinu sinn sess sem landvörður með allri þeirri útiveru sem því starfi fylgdi... þrátt fyrir að hennar nánustu hefðu í fyrstu hlegið sig máttlaus af þessum brennandi áhuga hennar á náttúrunni.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Fjölskylduerjur
Þetta var ekki endilega það sem Cody Wyatt hafði dreymt um, að flytja heim á búgarð ömmu sinnar og setjast þar að. Jafnvel þótt hann væri yngstur af sex ráðríkum bræðrum hafði Cody aldrei verið neitt sérstaklega góður í því að láta segja sér fyrir verkum. Hann sætti sig við ráðríki ömmu sinnar, enda hafði hún bjargað honum og bræðrum hans og alið þá upp. Engum datt í hug að andmæla Pauline ömmu. Bræðrunum sex kom misvel saman. Sá elsti, Jamison, hafði bjargað þeim öllum úr klóm föður þeirra og mótorhjólagengis hans og komið þeim fyrir með leynd hjá móðurömmu þeirra. Móðir þeirra var löngu látin. Jamison hafði reynt að ala Cody upp sem sinn eigin son og það hafði pirrað Cody. Hann leit upp til elsta bróður síns en það voru svo mörg ár í milli þeirra að hann hafði aldrei haft mikinn skilning á ábyrgð Jamisons, allra síst fyrstu árin. Brady og Gage voru tvíburar. Þeir voru svo mjög samrýmdir að þeir næstum töluðu sitt eigið tungumál. Cody var mjög hlýtt til þeirra beggja. Tucker var næstur Cody í aldri. Hann dáði Jamison enda var hann prýddur sömu góðu eiginleikum og stóri bróðir hans. En bæði Dev og Cody áttu sér dekkri hliðar og voru einir bræðranna um það. Erfitt skaplyndi Devs hafði næstum orðið honum að bana fyrir nokkrum árum og þar með hafði Cody ákveðið að gera sitt til þess að hafa hemil á erfiðu skaplyndi sínu og beina því í réttan farveg. En það var ekki auðvelt fyrir hann þessa dagana. Nú var hann aftur kominn á búgarðinn eftir síðasta leiðangur með Norðurstjörnu. Þessi aðgerð átti að fara leynt en ýmislegt hafði engu að síður lekið út um aðkomu hans að henni. Hann saknaði Norðurstjörnu og þess trúnaðar sem ríkti þar á
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Hildarleikur
Bluesteel í suðurhluta Dakota var svo lítill bær að hann var sjaldnast merktur sem punktur á landakortum. Þar gerðist því ekki margt sem var einmitt ein helsta ástæða þess að Jamison Wyatt var hæstánægður með að starfa þar sem lögreglustjóri og einn þriggja laganna varða í bænum sem smæðar sinnar vegna heyrði formlega undir lögregluembætti Valíantsýslu. Hann var ekki sá eini þeirra bræðranna sex sem lagt hafði lögreglustörf fyrir sig en hann var sá eini þeirra sem gegndi embætti lögreglustjóra. Hann hafði alist upp í hættulegum og erfiðum heimi gengis sem faðir hans stýrði af mikilli hörku. Synir óbyggðanna var félagsskapur harðsvíraðra óeirðamanna sem áratugum saman hafði herjað á lítil bæjarsamfélög í suðurhluta Dakótafylkis... bæjarsamfélög á borð við Bluesteel. Honum til happs hafði hann varið fyrstu fimm árum lífsins á búgarði móðurömmu sinnar áður en móðir þeirra lét undan þrýstingi Ace Wyatt og fluttist með drengina þeirra til samtakanna. Fyrstu árin á eftir þekkti hann því muninn á réttu og röngu sem amma hans hafði innprentað þeim. Þegar bræðurnir fæddust síðan einn af öðrum inn í samtökin áttaði hann sig betur og betur á að hann varð að ná þeim þaðan í burtu. Hann hafði því flúið með þá einn af öðrum á búgarð móðurömmu þeirra í útjaðri Vaíanthéraðs.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Undir smásjá
Ellý Brannon annaðist útvarpsþátt sem tók við símtölum frá hlustendum í beinni útsendingu. Síðustu þrjú kvöld hafði hún fengið óljós og óskýr símtöl frá nafnlausum hlustanda. Sambandið var mjög lélegt svo hún heyrði varla rödd hans, hvað þá það sem hann hafði að segja. En það var eitthvað ógnvekjandi við tímasetningu þessara símtala og undirtóninn sem skynja mátti með öllum hljóðtruflununum. Ellý sat í öruggu skjóli hljóðstofunnar sem var fullkomlega hljóðeinangruð. Yfirleitt naut hún þess að hlusta á óvenjulegar og skringilegar frásagnir hlustenda sinna. Umræðuefnin voru alls konar. Allt frá yfirnáttúrulegum viðburðum til alls kyns samsæra í stjórnmálum. En ólíkt flestu öðru útvarpsfólki sem stjórnaði spjallþáttum þá neitað Ellý að notast við útsendingarstjóra jafnvel þótt að þættinum hennar, Miðnætti við Echo Lake, væri nú útvarpað á sextíu útvarpsstöðvum vítt og breitt um landið. Ellý hagræddi hljóðnemanum, leit á klukkuna á veggnum og þrýsti svo á hnapp og heilsaði næsta hlustanda. Enn á ný mátti heyra truflanir. –Gott kvöld, þú ert í beinni hjá Ellý Brannon. Skyndilega hurfu truflanirnar og þá mátti greinilega heyra kvenmannsrödd hvísla. –Hann er að koma… Ellý reyndi að láta þetta ekki raska ró sinni. –Það eru svo miklar truflanir á línunni. Getur þú fært þig fjær útvarpstækinu? Röddin dó smám saman út og aftur heyrðist ekkert nema truflanir. Ellý reyndi að stilla tækin og útiloka truflanirnar. –Ertu þarna ennþá? Ekkert. Aðeins dauðaþögn. Hendur Ellýjar nötruðu og hún vissi ekki almennilega hvers
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr. -
Græðgi
Nikki Dresden var fegin að hafa ekki bara tekið með sér töskuna sína, heldur einnig vöðlurnar. Líkið flaut á maganum skammt frá bakkanum. Hún reyndi að hugsa sem minnst um krókódílana og snákana sem leyndust inni á milli dúnhamranna sem uxu upp úr grunnu vatninu.
Rotnunarþefur barst að vitum hennar er hún óð út í vatnið og hún þakkaði sínum sæla fyrir að vera með tösku í bílnum sem innihélt föt til skiptanna og strigaskó. Hún var ekki feimin við að afklæðast. Samfestingurinn, sem hún var í þessa stundina, yrði settur í sorpsekk og síðan í loftþéttar umbúðir áður en hann yrði annaðhvort fluttur í þvottahúsið á rannsóknarstofunni eða settur í öflugu þvottavélina hennar á pallinum. Nikki hafði snemma lært í starfi sínu sem réttarmeinafræðingur og líkskoðari Nancesýslu að ef þefur dauðans komst inn í ökutæki var hann þar dögum og jafnvel vikum saman. Nú gerði hún varúðarráðstafanir varðandi alla þætti vinnu sinnar.
Þess vegna hafði hún einmitt varið nokkrum mínútum í að skrifa hjá sér athugasemdir og teikna umhverfið þegar hún kom á staðinn, áður en hún klæddi sig í vinnufötin. Blæbrigði skiptu máli og ekki á minnið treystandi. Jafnvel ljósmyndir gátu gefið villandi hugmynd.
Eignastu þessa bók sem rafbók núna!
Rafbækurnar frá okkur getur þú hlaðið beint niður af síðunni okkar þegar þú kaupir bók
Verð á rafbókVerð á rafbókmeð VSK995 kr.